VALMYND ×

Fréttir

Páskaföndur

Nú fer í hönd síðasta vikan fyrir páskaleyfi með tilheyrandi páskaföndri. Krakkarnir í 3. bekk eru að læra almenn brot í stærðfræðinni og nýttu tækifærið til að gera myndverk úr brotum og notuðu 1 heilan, ½ , ¼ og  1/8 úr hring. 

Útikennsla

7. bekkur við eldamennsku á skólalóðinni
7. bekkur við eldamennsku á skólalóðinni
1 af 5

Í vetur hefur hvert tækifæri verið nýtt til útikennslu í ýmsum námsgreinum. Matreiðsla er þar engin undantekning og hafa nemendur tekið því fegins hendi að elda eitthvað heitt og gott utandyra. Oftast hefur verið farið upp í Jónsgarð þar sem hlóðum hefur verið komið upp á öruggum stað, en einnig hafa nemendur nýtt sér skólalóðina eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar

Síðastliðinn fimmtudag var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum. Nemendur í 7. bekk grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt og hafa æft stíft frá því að keppnin var sett á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember s.l.

Sigurvegari þetta árið varð Alda Marín Ómarsdóttir frá Súðavíkurskóla. Í öðru sæti lenti Natalía B. Snorradóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri og Hákon Ernir Hrafnsson frá G.Í. hafnaði í þriðja sæti. Dómarar voru þau Daðey Einarsdóttir, Elfar Logi Hannesson, Halldóra Björnsdóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir.

Við óskum vinningshöfum og öllum öðrum þátttakendum innilega til hamingju með góðan árangur.

Menningarfjölbreytni hjá 10. bekk

Stúlknakórinn Hróðný
Stúlknakórinn Hróðný
1 af 2

Fjöldi manns sótti menningarkvöld hjá 10. bekk í sal skólans í kvöld. Nemendur sýndu hæfileika sína í  söng, hljóðfæraleik, dansi, ljóðalestri á dönsku, spænsku og pólsku auk þess sem boðið var upp á myndlistarsýningu. Í hléi var gestum svo boðið upp á kaffihlaðborð. 

Auk þeirra sem stigu á svið komu fjölmargir nemendur að undirbúningi á einn eða annan hátt. Ágóði af kvöldinu verður nýttur í vorferð 10. bekkjar undir lok skólaársins.

 

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Á morgun, fimmtudaginn 22. mars fer lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Nemendur úr 7. bekk frá flestum skólum á norðanverðum Vestfjörðum munu þar keppa í upplestri á sögubrotum og ljóðum.
Frá G.Í. eru sex fulltrúar, þau Elías Ari Guðjónsson, Eva Rún Andradóttir, Hákon Ernir Hrafnsson, Linda Marín Kristjánsdóttir, Ólöf Dagmar Guðmundsdóttir og Sonia Ewelina Mazur. Til vara verða þau Birta Dögg Guðnadóttir og Sigurður Arnar Hannesson.

Hátíðin hefst kl. 20:00 og hvetjum við alla til að koma og hlýða á góðan upplestur og standa þannig við bakið á okkar fólki.

 

 

Skólatónleikar

Ólöf Einarsdóttir við flygilinn
Ólöf Einarsdóttir við flygilinn
1 af 2

Í morgun buðu tónlistarnemendur í 4., 5. og 8. bekk samnemendum sínum á tónleika í Hömrum. Fram komu nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar og Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og léku á píanó, gítar, trompet, saxófón og fiðlu. Efnisskráin var mjög fjölbreytt og greinilegt að skólinn býr yfir mörgum hæfileikaríkum tónlistarnemendum. Myndir frá 5. og 8. bekk eru nú komnar hér inn á síðuna.

Menningarkvöld 10. bekkjar

Miðvikudaginn 21. mars ætlar 10. bekkur að halda menningarkvöld í sal skólans. Skemmtunin hefst klukkan 20:00 og er aðgangseyrir 1000 kr. en innifalið er kaffihlaðborð. Á dagskránni verður ljóðalestur á ýmsum tungumálum, hljóðfæraleikur, söngur o.fl. Skemmtunin er fyrir unga jafnt sem aldna og allir hvattir til að mæta.

Úrslit í Freestyle

Danshópurinn Wild girls sigraði í Freestyle dansi. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
Danshópurinn Wild girls sigraði í Freestyle dansi. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Danshópurinn Wild girls úr 6. bekk dansaði til sigurs í Freestylekeppninni sem haldin var s.l. miðvikudag undir stjórn Evu Friðþjófsdóttur. Stelpurnar sjö sem skipa danshópinn eru þær Anna María Daníelsdóttir, Auður Líf Benediktsdóttir, Birta Rós Þrastardóttir, Guðrún Kristín Kristinsdóttir, Ína Guðrún Gísladóttir, Jóhanna Jóhannsdóttir og Sara Dögg Ragnarsdóttir.

Í 2. sæti var danshópurinn Stormurinn, en það voru þau Birgitta Brá Jónsdóttir, Bjarni Pétur Marel Jónasson, Einar Torfi Torfason og Tatjana Snót Brynjólfsdóttir.

Í 3. sæti var svo hópurinn Kók í dós, þau Birgitta Brá Jónsdóttir, Jóhanna Ósk Gísladóttir, Lára Sigrún Steinþórsdóttir og Tatjana Snót Brynjólfsdóttir.

Auk keppenda sýndu tvær stúlkur úr 10. bekk, þær Guðmunda Líf Gísladóttir og Kristín Harpa Jónsdóttir þrjá dansa. Ásgeir Kristján Karlsson úr 9. bekk og Baldur Björnsson úr 8. bekk röppuðu lagið Smekklegt sem þeir fluttu í Samfés keppninni í fyrri mánuði, auk þess sem sigurvegarar Freestyle keppninnar frá í fyrra stigu dans. Kynnar voru þær Guðmunda Líf Gísladóttir, Isabel Alejandra Diaz og Kristín Harpa Jónsdóttir.
Dómnefndinni var vandi á höndum að gera upp á milli þeirra fimm frábæru danshópa sem tóku þátt í þetta sinn, enda stóðu þeir sig allir með stakri prýði. Dómarar voru þau Atli Þór Gunnarsson, Erla Sighvatsdóttir, Henna-Riika Nurmi og Margrét Lilja Vilmundardóttir. Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með árangurinn.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun voru valdir sex nemendur úr 7. bekk til að keppa fyrir hönd skólans á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar, sem haldin verður í Hömrum fimmtudaginn 22. mars n.k. kl. 20:00.
Fulltrúar skólans verða:

Elías Ari Guðjónsson, Eva Rún Andradóttir, Hákon Ernir Hrafnsson, Linda Marín Kristjánsdóttir, Ólöf Dagmar Guðmundsdóttir og Sonia Ewelina Mazur. Til vara verða þau Birta Dögg Guðnadóttir og Sigurður Arnar Hannesson.

Alls voru þrettán nemendur sem spreyttu sig í morgun og stóðu sig allir með stakri prýði. Dómarar voru þau Halldóra Björnsdóttir, Helga S. Snorradóttir og Ólafur Örn Ólafsson.

10. bekkur heimsækir Menntaskólann

Í síðustu viku heimsóttu námsráðgjafar Menntaskólans á Ísafirði, þær Guðrún Stefánsdóttir og Stella Hjaltadóttir 10. bekk og kynntu námsframboð að loknum grunnskóla. Nú er komið að 10. bekk að heimsækja M.Í. og fer árgangurinn fimmtudaginn 15. mars kl. 13:30.