VALMYND ×

Fréttir

Þorri

Mikinn merkisdag ber upp á 20. janúar en þá hefst þorri. Þorri er gamalt mánaðarheiti en samkvæmt forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Nú á dögum könnumst við við þetta heiti úr hugtökum eins og þorramatur og þorrablót. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér eða að komast í gegnum hann, þola tímabundna erfiðleika. Fyrsti dagur þorra nefnist bóndadagur og einmitt þann dag er miður vetur. (Heimild www.nams.is)

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrablót 10. bekkjar er ein af elstu hefðum skólastarfsins og með þeim skemmtilegustu. Árgangurinn hefur nú iðkað stífar dansæfingar undir stjórn Evu Friðþjófsdóttur danskennara, enda er mikill metnaður lagður í þorrablótið.
Blótið verður haldið föstudaginn 20. janúar á sjálfan bóndadaginn og hefst kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:30. Nemendur 10. bekkjar og gestir þeirra mæta með þorramat í trogum upp á gamla mátann og bjóða kennarar og foreldrar upp á skemmtiatriði. Að því loknu verða gömlu dansarnir dansaðir fram á kvöld.

Þeir sem eiga þjóðbúninga eru hvattir til að mæta í þeim til að gera blótið sem þjóðlegast.

Úrslit í söngkeppni SAMÍS

Agnes Sólmundsdóttir nemandi í Grunnskólanum á Þingeyri kom, sá og sigraði í söngkeppni SAMÍS sem haldin var í gærkvöld en hún sigraði einnig í Vestfjarðakeppninni í fyrra.
Í 2. sæti lentu þeir Ásgeir Kristján Karlsson og Baldur Björnsson frá G.Í., í því 3. Kristín Harpa Jónsdóttir frá G.Í., 4. sæti Birgir Knútur Birgisson frá Þingeyri og í því 5. hafnaði stúlknakórinn Hróðný frá G.Í.
Alls kepptu 16 atriði um þátttökurétt fyrir hönd Ísafjarðarbæjar í Vestfjarðakeppni Samfés, sem haldin verður í Súðavík föstudaginn 27. janúar n.k.

Það var samdóma álit allra sem að keppninni stóðu að öll atriðin væru hvert öðru glæsilegra og metnaðarfyllra. Það kom í hlut dómnefndar að skera úr um úrslit og var hún svo sannarlega ekki öfundsverð af því hlutskipti. Í dómnefndinni þetta árið sátu þau Elísabet Traustadóttir, Guðmundur Hjaltason og Sveinbjörn Hjálmarsson. Kynning var í höndum þeirra Helga Snæs Bergsteinssonar og Melkorku Ýrar Magnúsdóttur, nemenda í 10. bekk G.Í.

Skólinn óskar vinningshöfum og þátttakendum öllum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu.

Söngvakeppni SAMÍS

Á morgun, föstudaginn 13. janúar, fer söngvakeppni SAMÍS fram í sal Grunnskólans á Ísafirði . Þátttakendur koma frá félagsmiðstöðvunum í Ísafjarðarbæ og keppa þeir um þátttöku í söngvakeppni Samfés sem haldin verður síðar í vetur.
Aðgangseyrir er kr. 1.500 fyrir fullorðna en kr. 1.000 fyrir 18 ára og yngri. Keppnin hefst kl. 20:00 og opnar húsið kl. 19:30.

Dansæfingar fyrir þorrablót

 
 
 
 
 
 
 
Þorrablót 10. bekkjar verður haldið föstudaginn 20. janúar næstkomandi. Nemendur eru nú í óða önn að æfa réttu danssporin undir leiðsögn Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. Ekki mega foreldrar verða neinir eftirbátar krakkanna og býður Eva þeim upp á námskeið í gömlu dönsunum, tvö skipti fyrir 500 kr. á mann í hvort skipti og rennur ágóðinn í ferðasjóð 10. bekkjar.
Fyrra námskeiðið verður fimmtudagskvöldið 12. janúar kl. 20:00 í sal skólans. Seinna skiptið verður svo mánudagskvöldið 16. janúar kl. 20:00 í sal skólans og eru foreldrar hvattir til að nýta sér þetta góða boð.

Lok haustannar

Nú er skólastarfið komið á fullt eftir gott og endurnærandi jólaleyfi og óskum við öllum gleðilegs árs.


Haustönn lýkur föstudaginn 20. janúar og einkennast næstu tvær vikur því af námsmati, með tilheyrandi verkefnum og prófum. Nánari upplýsingar verða settar inn á bekkjasíður og/eða sendar heim eftir öðrum leiðum.

Jólakveðja

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum sínum, fjölskyldum þeirra og velunnurum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Skólastarf hefst á nýju ári miðvikudaginn 4. janúar 2012.

Grunnskólinn á Ísafirði í 3. - 4. sæti í Brúnni

Nokkrir nemendur úr 10. bekk hafa undanfarnar vikur tekið þátt í samskiptaverkefni íslenskra grunnskólanemenda sem leggja stund á dönsku, sænsku og norsku og samlanda þeirra er sækja íslenskukennslu á Norðurlöndunum. Verkefnið kallast Brúin og er markmið þess að stuðla að notkun norrænna tungumála og samvinnu nemenda á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í gegnum skapandi viðfangsefni á neti.
Allir þátttakendur voru hvattir til að skila inn lokaverkefni og
bárust 60 slík frá 75 nemendum í 9 skólum.

Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 3. - 4. sæti með myndbandið Tónlistin okkar. Í myndbandinu kynntu krakkarnir tónlist sem eitt aðaláhugamál þeirra og spiluðu á píanó og fiðlu. Þátttakendur verkefnisins voru þau Haraldur Jóhann Hannesson, Kristín Harpa Jónsdóttir, Maksymilian Haraldur Frach, Sara Björgvinsdóttir og Sigríður Salvarsdóttir, undir leiðsögn dönskukennaranna sinna, þeirra Ölmu Frímannsdóttur, Guðríðar Sigurðardóttur og Kristínar Ólafsdóttur. Verkefni krakkanna má nálgast hér http://www.youtube.com/watch?v=Fn6uc88rnwo
og allar nánari upplýsingar um Brúarverkefnið má finna hér: http://leikar.net/bruin/2011/12/verdlaun-og-vidurkenningar/

Síðustu dagarnir fyrir jólaleyfi

Nú fara í hönd síðustu dagar fyrir jólaleyfi og verður kennt samkvæmt stundaskrá þessa viku.

Mánudaginn 19. desember er skreytingadagur og er skólatími frá kl. 8:00 til 12:00 þar sem hver bekkur er með sínum umsjónarkennara. Engar sérgreinar eru þann dag og mötuneytið er komið í jólaleyfi. Strætó fer kl. 12:15. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00.

Þriðjudaginn 20. desember eru svo litlu jólin og er skólatími frá kl. 9:00 – 12:00. Strætó fer í skóla kl. 8:40 og heim kl. 12:15. Dægradvöl er opin frá kl. 12:00.

Þar með er komið jólaleyfi og hefst kennsla aftur miðvikudaginn 4. janúar 2012 samkvæmt stundaskrá.



 

Stelpurnar okkar

Nemendur G.Í. eru heldur betur að gera það gott í íþróttunum þessa dagana. Elena Dís Víðisdóttir, nemandi í 10. bekk og sundkona úr Sundfélaginu Vestra, hefur verið valin til þátttöku á Norðurlandameistaramóti unglinga í sundi sem fram fer í Laugardalnum um helgina. Hún náði lágmarki Sundsambands Íslands á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í 50 metra skriðsundi er hún synti vegalengdina á tímanum 27.76 sek. 
Sigrún Gunndís Harðardóttir, einnig nemandi í 10. bekk og knattspyrnukona úr BÍ hefur verið valin í úrtakshóp U-17 ára landsliðs Íslands og hefur verið á úrtaksæfingum í Kórnum og Egilshöll í Reykjavík.
Þá hefur Eva Margrét Kristjánsdóttir, nemandi í 9. bekk og leikkona KFÍ, verið að leika með U-15 ára landsliði Íslands undanfarið og vakið verðskuldaða athygli.