VALMYND ×

Fréttir

Vordagskráin

Í maímánuði er mikið um að vera í skólalífinu. Fyrir utan hefðbundna kennslu og annarpróf eru heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir, útivistardagar og margskonar uppákomur.

Vordagskrána í heild sinni má finna hér vinstra megin á síðunni.

Hæfileikaríkir 10. bekkingar

f.v. Sigríður, Kristín Harpa, Hrafnkell Hugi, Rakel, Hákon, Laufey Hulda og Aron Ottó. Á myndina vantar Elvar Ara, Hákon Ara og Þormóð.
f.v. Sigríður, Kristín Harpa, Hrafnkell Hugi, Rakel, Hákon, Laufey Hulda og Aron Ottó. Á myndina vantar Elvar Ara, Hákon Ara og Þormóð.

Í kvöld voru tónleikar tónlistarnema í 10. bekk í Hömrum. Fram komu 11 nemendur af þeim 23 sem stunda tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Nemendur léku fjölbreytt verk eftir ýmsa þekkta höfunda á píanó, gítar, flautu og klarinett , en einnig var boðið upp á frumsamin lög. Flytjendur voru þau Laufey Hulda Jónsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Hrafnkell Hugi Vernharðsson, Rakel Þorbjörnsdóttir, Elvar Ari Stefánsson, Hálfdán Jónsson, Hákon Ari Halldórsson, Þormóður Eiríksson, Hákon Jónsson, Aron Ottó Jóhannsson og Kristín Harpa Jónsdóttir.
Sigríður Ragnarsdóttir, skólastjóri T.Í. kvaðst mjög stolt af þessum hæfileikaríku krökkum og færði skólinn þeim rósir í lok tónleikanna og bauð upp á léttar veitingar.

Tónleikar 10. bekkinga

Í vetur stunda 23 nemendur 10. bekkja grunnskólanna í Ísafjarðarbæ tónlistarnám í Tónlistarskóla Ísafjarðar á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri . Þetta er óvenju hátt hlutfall nemenda í þessum aldurshópi, en algengt er að unglingar hverfi frá tónlistarnámi um eða eftir fermingaraldur.  Margir þessara nemenda hafa auk þess náð mjög góðum árangri í tónlistarnámi, hafa lokið grunnprófi eða miðprófi og einn hefur lokið framhaldsprófi sem er einstakt fyrir svo ungan nemanda.

 

Í kvöld, miðvikudaginn  2. maí  kl. 20,  munu um 15 þessara nemenda halda sérstaka tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskólans við Austurveg. Leikið verður á píanó, gítar, klarinett, flautu auk söngs. Efnisskráin er fjölbreytt og aðgengileg, verk eftir Bach, Bertini, Satie, Tarrega og fleiri klassísk tónskáld en einnig verður flutt djass, dægur- og kvikmyndatónlist auk frumsaminna laga eftir nemendurna. Tvö íslensk tónskáld eiga verk á efnisskránni, Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Hjálmar H. Ragnarsson. Allir eru velkomnir á tónleikana að því er fram kemur á vef skólans.

Útileikfimi

Eins og tíðkast hefur undanfarin ár, þá er leikfimin kennd utanhúss í maí. Því er um að gera að vera sérstaklega vel klæddur til útivistar til að njóta hennar sem best.

Alþjóðlegi dansdagurinn

1 af 3

Alþjóðlegi dansdagurinn er haldinn hátíðlegur þann 29. apríl um heim allan frá árinu 1982. Dagsetningin er til minningar um fæðingardag Jean-Georges Noverre, sem fæddist árið 1727 og var mikill dansumbótasinni.  

Markmið dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir og færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með sameinginlegu tungumáli – dansinum.

Nemendur í 1. - 7. bekk G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í dansinum og söfnuðust saman í skólaportinu nú áðan og stigu nokkra dansa í tilefni gærdagsins.

Verkalýðsdagurinn

Á morgun, þriðjudaginn 1. maí er verkalýðsdagurinn og ekkert skólahald.

Skóladagatal næsta skólaárs

Nú er skóladagatal næsta skólaárs komið inn á síðuna hér vinstra megin. Þar má sjá alla kennsludaga, vetrarfrí, starfsdaga o.þ.h.

Hvað ef?

Íslandsbanki á Ísafirði í samstarfi við Þjóðleikhúsið og 540 Gólf leikhús, býður 8., 9. og 10. bekk G.Í. á sýninguna Hvað Ef?  mánudaginn 30. apríl í Edinborgarhúsinu kl. 11:00.  Leikritið fjallar um viðkvæm mál eins og vímuefni, áfengi, kynferðisofbeldi, ölvunarakstur, einelti og foreldravandamál á skemmtilegan og nýstárlegan hátt. Flytjendur eru Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Ólöf Jara Skagfjörð og Ævar Þór Benediktsson og leikstjóri Gunnar Sigurðsson.

Sérstök sýning  fyrir foreldra og aðra sem áhuga hafa verður kl. 20:00 sama dag og  geta foreldar eða félög haft samband  við Margréti Halldórsdóttur fristund@isafjardarbaer.is  fyrir nánari upplýsingar.

Verkið hefur hlotið einmuna lof unglinga, foreldra, kennara og þeirra sem hafa staðið í forvörnum og fræðslu um lengri eða skemmri tíma. Með húmorinn og einlægnina að vopni einsetjum við okkur að opna umræðuna um raunveruleika ungmenna á Íslandi.

Úrslit í Skólahreysti

Í gærkvöld fór fram úrslitakeppnin í Skólahreysti í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Úrslit urðu þau að Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði, Heiðaskóli í Reykjanesbæ hafnaði í öðru sæti og Hagaskóli í Reykjavík í því þriðja. Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti en alls voru það rúmlega 90 skólar sem tóku þátt í kepnninni þetta árið. Krakkarnir okkar stóðu sig allir með sóma sem og áhorfendur sem fylgdu keppendunum eftir.

Ný stjórn nemendafélagsins

Í gær var aðalfundur Nemendafélags G.Í. haldinn á sal skólans. Ársreikningur félagsins var lagður fram, auk þess sem 7. bekkingar voru boðnir velkomnir í félagið. Á þessum tímamótum 7. bekkinga var þeim boðið í félagsmiðstöðina seinni part dags fram að mánaðamótum apríl - maí, en eftir það eru þeir einnig velkomnir á kvöldin.


Kosið var um nýja stjórnendur nemendafélagsins fyrir næsta skólaár og urðu úrslit þau að Finney Anita Thelmudóttir var kjörin formaður og Gísli Jörgen Gíslason varaformaður. Við óskum þeim innilega til hamingju og má ljóst vera að nemendafélagið verður í góðum höndum næsta skólaár.