VALMYND ×

Fréttir

Önnur vinnustöðvun

Félag grunnskólakennara hefur boðað til annarrarar vinnustöðvunar á morgun, miðvikudaginn 21. maí, hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma. Búið er að gera stutt hlé á samningaviðræðum FG og sveitarfélaganna, en fundarhöldum verður framhaldið klukkan sjö í kvöld.

Hvort samningar nást og hægt verður að fresta vinnustöðvun mun ekki liggja ljóst fyrir fyrr en í kvöld eða nótt og biðjum við því alla að fylgjast vel með fjölmiðlum í kvöld eða fyrramálið.

Óskilamunir

Enn hlaðast upp óskilamunir í skólanum s.s. íþróttaföt, vettlingar, húfur, peysur o.þ.h. Auðvelt er að finna eigendur að vel merktum flíkum, en ógjörningur með það ómerkta. Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að kíkja við í anddyri skólans, Aðalstrætismegin og athuga hvort þeir þekki eitthvað.

Valgreinar

Í vetur gerðum við tilraun með að bjóða upp á valgreinar fyrir miðstigsnemendur, það er 5. – 7. bekk.  Það mæltist sérstaklega vel fyrir meðal nemenda og munum við því halda áfram með þetta verkefni.  Næsta vetur munu nemendur geta valið viðfangsefni í þrjár kennslustundir, þ.e. tvær á þriðjudögum og eina á föstudögum.  Nemendur fengu valblaðið í dag og eru beðnir um að skila því til umsjónarkennara í síðasta lagi þriðjudaginn 27.maí.

Heimsókn í Sjávarfang

1 af 3

Á dögunum fór Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari, með valhópa sína í 9. og 10. bekk í heimsókn til Kára Jóhannssonar fisksala í Sjávarfangi. Kári sýndi hópnum alls konar fiska eins og skötusel, steinbít, hlýra, karfa og fleiri.

Það er ótrúlegt að sjá hve miklar breytingar hafa orðið hér á Ísafirði eins og auðvitað í flestum öðrum bæjum og þorpum sem hafa haft fiskveiðar sem aðal atvinnugrein í gegnum tíðina. Þegar Kári fisksali var á sama aldri og þessir krakkar vann hann við fisk og sennilega um 90% af hans jafnöldrum. Enginn af þessum krökkum hefur unnið í fiski og aðeins ein eða tvær stúlkur hyggjast vinna við fisk í sumar. Mörg hver hafa aldrei séð fisk flakaðan, hvað þá skoðað innyflin.

Guðlaug er á því að krakkarnir hafi haft mjög gott og gaman af þessari ferð og þakkar Kára kærlega fyrir móttökurnar.

Fræðsluerindi frá Greiningarstöð

Mánudaginn 19. maí munu Sigurlaug Vilbergsdóttir, þroskaþjálfi og Helga Arnfríður Haraldsdóttir sálfræðingur, vera með fræðsluerindi fyrir foreldra, kennara, starfsfólk skóla og félagsþjónustu. Fræðslan fer fram í sal Grunnskóla Bolungavíkur frá kl. 15-17.

Sigurlaug og Helga munu fjalla um frávik í taugaþroska barna, með áherslu á einhverfu, ADHD, kvíða og námsvanda. Gert er ráð fyrir u.þ. b. klukkustundar fræðslu og í kjölfarið gefst góður tími fyrir spurningar og umræður. 

Ekki þarf að greiða fyrir þessa fræðslu. 

Aðgengi fatlaðra

Hópur nemenda 6. og 9. bekkjar ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur
Hópur nemenda 6. og 9. bekkjar ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur
1 af 3

Nemendur í 6. og 9. bekk hafa undanfarið unnið saman að rannsókn varðandi aðgengi fatlaðra á Ísafirði.  Árgöngunum var skipt upp í 4 manna aldursblandaða hópa sem unnu út frá sömu spurningum, heimsóttu fyrirtæki hér í bæ og gerðu könnun á aðgengi fatlaðra. Síðan unnu nemendur veggspjöld þar sem niðurstöður voru birtar.

 

Farið var í þessa verkefnvinnu að tilstuðlan Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur kennara, sem einnig er félagi í MND samtökunum. Hún hvatti til að nemendur gerðu þessa könnun og kynntu niðurstöðurnar á opnum fundi MND félagsins, sem haldinn var í Edinborgarhúsinu 9. maí s.l.  Þær Ingigerður Anna Bergvinsdóttir og Ólöf Dagmar Guðmundsdóttir nemendur í 9. bekk kynntu verkefnið fyrir gestum fundarins og vakti erindi þeirra verðskuldaða athygli.

 

Rannsóknin sjálf gekk mjög vel og urðu nemendur margs vísari um aðgengi fatlaðra á Ísafirði. Þeir komust meðal annars að því að það sem okkur finnast sjálfsögð mannréttindi er ekki svo sjálfsagt fyrir fatlaða, t.d. að fara í sund hér í bæ.

 

Vinnustöðvun kennara

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið, hefur Félag grunnskólakennara boðað til vinnustöðvunar á morgun, fimmtudaginn 15. maí, hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma. 

Hvort samningar nást og hægt verður að fresta vinnustöðvun mun ekki liggja ljóst fyrir fyrr en í kvöld eða nótt. Upplýsingar verða birtar á ki.is um leið og málin skýrast og biðjum við því alla að fylgjast vel með fréttum.

Lífið er yndislegt

1 af 4

Síðast liðinn föstudag fengum við aldeilis góða heimsókn, frá MND-félaginu, sem hélt sinn mánaðarlega fund hér á Ísafirði í þetta skiptið, undir yfirskriftinni Lífið er yndislegt. Guðjón Sigurðsson, formaður félagsins, hélt fyrirlestur um sjúkdóminn fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar. Nemendur í 6. og 9. bekk höfðu gert athugun á aðgengi fatlaðra hér í bæ og kynntu niðurstöður sínar á fundinum. Það gerðu þau svo vel og fagmannlega að stjórnarmaður í MND félaginu sem hefur unnið mikið með Öryrkjabandalaginu að ferlimálum hafði orð á því að hann hefði aldrei séð svo fagmannleg skil.

Við þökkum félaginu kærlega fyrir fræðandi og áhugaverðan fyrirlestur.

Vorskipulag

Nú er hægt að nálgast vorskipulag allra árganga hér á heimasíðunni vinstra megin, undir hnappnum vordagskrá. Við hvetjum alla til að kynna sér skipulagið, því að mikið er um alls konar viðburði og uppbrot á skólastarfinu.

Sumarskemmtun félagsmiðstöðvarinnar

Árleg sumarskemmtun félagsmiðstöðvarinnar Djúpsins verður haldin föstudaginn 9. maí á Suðureyri.  Þetta er liður í að loka félagsstarfi vetrarins með pompi og prakt, kveðja 10. bekkinga og bjóða 7. bekkinga velkomna sem að eru að komast upp á unglingastigið í haust. 
Stefnan er að byrja á ratleik um Suðureyri og því næst að grilla hamborgara. Þegar allir eru saddir og sælir og hafa skoðað Suðureyri þá er komið að balli í félagsheimilinu.
Rútur eru í boði og fara þær kl 16:30 frá Ísafjarðarbíói. Áætlað er að dagskrá sé lokið um 23:00  og þá er smalað í rútur og haldið heim á leið.
Fargjaldið í rútuna er 500 kr. (1.000 kr.  fram og til baka) og svo kostar  1.000 kr. á ballið. Maturinn og gosið  er ókeypis og er það  Ölgerðinni og Samkaup  að þakka sem hafa styrkt þessa hátíð.