VALMYND ×

Minnkandi matarsóun

Fyrr í vetur stóð umhverfisteymi G.Í. fyrir fræðsluverkefni um matarsóun. Stofnuð var umhverfisnefnd í skólanum en í henni sátu sex nemendur á unglingastigi. Verkefnið hófst með því að kennarar í umhverfisteyminu gerðu leynilega könnun í eina viku í mötuneyti skólans þar sem fylgst var með því hversu miklum mat nemendur í fjórum yngstu bekkjunum hentu í lok máltíðar. Mælingarnar stóðu yfir í eina viku og voru allar niðurstöður skráðar. Að því loknu tóku unglingarnir í umhverfisnefndinni til starfa. Þeir settu saman fræðsluefni og fóru skipulega í alla bekki á yngsta stigi. Fræðslan miðaði að því að útskýra fyrir yngri börnunum hvernig hægt væri að minnka eða jafnvel koma alveg í veg fyrir matarsóun. Einnig komu unglingarnir aðeins inn á skynsamlega notkun á pappír og sápu. Á þessum tímapunkti voru nokkrar vikur liðnar frá mælingunum. Gert hafði verið samkomulag við starfsfólk mötuneytisins og var nákvæmlega sami matseðill nú hafður í eina viku. Aftur voru allar matarleifar mældar og nú með vitneskju nemenda.
Fræðsla unglinganna skilaði sér svo sannarlega því mikill munur var á niðurstöðum milli mælinganna í öllum árgöngum. Í dag kynntu unglingarnir niðurstöðurnar fyrir yngri börnunum og hengdu þær upp fyrir framan stofur barnanna. Á morgun, á foreldradegi, fá börnin tækifæri til að sýna foreldrum sínum árangurinn.

Nemendur í umhverfisnefnd G.Í. eru:
Gísli Steinn 10.bekk, Edda Lind 10.bekk, Ásgeir Óli 9.bekk, Rán 9.bekk, Sigríður 8.bekk og Sveinbjörn Orri 8.bekk.

Kennarar í umhverfisteymi G.Í. eru:
Agnes Karlsdóttir, Árni Heiðar Ívarsson, Guðlaug Jónsdóttir, Katrín Björnsdóttir, Kristín Berglind Oddsdóttir og Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir.

Deila