VALMYND ×

Fréttir

Norræna skólahlaupið

1 af 2

Nemendur G.Í. tóku í morgun þátt í Norræna skólahlaupinu, en það fór fyrst fram á Íslandi árið 1984. Markmið með hlaupinu er að hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu, auk þess að kynna og skýra nauðsyn þess að hreyfa sig og reyna á líkama sinn og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Lagt var af stað frá bæjarbrekku við Seljalandsveg. Yngstu nemendur skólans hlupu inn að Engi, miðstigið inn að Seljalandi og elstu krakkarnir inn að Seljalandi eða golfskála.

Krakkarnir stóðu sig allir með mikilli prýði og voru endurnærðir eftir góða hreyfingu.

Myndasíða í myndmennt

Í myndmenntinni hefur verið stofnuð Instagram síða sem vistar myndir af verkefnum sem unnin eru í myndmenntatímum.  Síðuna er hægt að nálgast hér vinstra megin á síðunni undir ,,Myndmennt" eða leita eftir myndmennt.grisa inni á Instagram. Vonumst við til að þetta auki aðgengi að kennslunni og að nemendur geti með auðveldum hætti nálgast myndir af verkum sínum. Svo er um að gera að gerast fylgjandi síðunnar til að missa ekki af nýju efni.

Spjaldtölvur afhentar tveimur árgöngum

Ísafjarðarbær og Skema hafa skrifað undir 14 mánaða samstarfssamning sem miðar að því að byggja upp og tryggja árangursríka innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarf Ísafjarðarbæjar og nágrennis. Einnig er ætlunin að skipa sveitarfélaginu í forystu á landsvísu í beitingu tækni í skólastarfi. 

Þessa dagana afhendir Grunnskólinn á Ísafirði nemendum í 5. og 9. bekk iPad spjaldtölvur til notkunar í námi og er það einn þáttur í því ferli sem nú er farið af stað. iPad spjaldtölvur búa yfir miklum möguleikum í námi með nýjum nálgunum, niðurhali á rafrænu námsefni o.fl. Markmiðið með notkun þeirra er ekki síst að efla læsi, sköpun og ábyrgð nemenda á eigin námi.

 

Fjallgöngum haustsins lokið

Fjallgöngum haustsins lauk s.l. miðvikudag, þegar 7. bekkur gekk yfir Breiðadalsheiði. Farið var með rútu í gegnum Vestfjarðagöngin sem liggja undir Breiðadalsheiðina og gengið yfir heiðina til baka. Vegurinn sem nú liggur yfir heiðina er frá árinu 1964 og einn af hæstu fjallvegum landsins, í um 610 metra hæð.

Þrátt fyrir góða veðurspá þegar gangan var ákveðin var mikil rigning á leiðinni en allir stóðu sig vel, komust yfir og mega vera stoltir af dagsverkinu.

Dagur rauða nefsins

Nemendur 6. bekkjar rauðnefjaðir
Nemendur 6. bekkjar rauðnefjaðir

Í dag er dagur rauða nefsins, en með því er athygli vakin á baráttu UNICEF fyrir réttindum barna um allan heim. Nemendur og starfsfólk G.Í. létu ekki sitt eftir liggja og mátti sjá mörg rauð nef á ferðinni í dag.

Vinaliðaverkefni

Mynd: Árskóli, Sauðárkróki
Mynd: Árskóli, Sauðárkróki

Þessa dagana er Grunnskólinn á Ísafirði að gerast aðili að svokölluðu vinaliðaverkefni. Verkefnið sem er norskt að uppruna, hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu  og er nú starfrækt í 827 skólum í Noregi. Það gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda. Við byrjum með 4. - 7. bekk en stefnum einnig á sömu vinnu með 8. - 10. bekk í framhaldinu.

Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum, þannig að nemendur finni eitthvað við sitt hæfi. Markmið okkar er að allir nemendur hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.

Nemendur í 4. - 7. bekk velja einstaklinga úr sínum bekkjum sem fá hlutverk vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og taka til eftir leikina. Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki vinaliða starfar í hálft ár í senn. Hann vinnur að verkefninu í löngu frímínútum skólans, tvo daga í viku, mánudag og miðvikudag eða þriðjudag og fimmtudag. Vinaliðinn mætir einnig á fundi þar sem starfið í frímínútum er skipulagt og vangaveltur sem því tengjast eru ræddar. Það er ekkert sem segir að vinaliði geti ekki verið valinn aftur, hópurinn tilnefnir þá nemendur sem honum finnst passa í starfið hverju sinni. Við val á vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýni öðrum nemendum virðingu. Ef vafi leikur á heilindum nemandans, getur umsjónarkennari frestað starfi hans sem vinaliða til næsta tímabils.

Skólinn nýtur stuðnings Árskóla á Sauðárkróki við að koma verkefninu af stað og hefur Árni Heiðar Ívarsson, íþróttakennari, tekið að sér stjórn verkefnisins fyrir hönd G.Í. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu vinaliðaverkefnisins hjá Árskóla.

Sjálfstyrkingarnámskeið 5. - 7. bekkjar

Kristín Tómasdóttir, rithöfundur
Kristín Tómasdóttir, rithöfundur

Í morgun komu Kristín Tómasdóttir og Bjarni Fritzson, rithöfundar með meiru í heimsókn til okkar og héldu stutt sjálfstyrkingarnámskeið fyrir nemendur í 5. - 7. bekk. Þau Kristín og Bjarni hafa bæði gefið út bækur varðandi sjálfsmynd stelpna og stráka og eru vel að sér í þeim efnum. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna og þeirra góða innlegg varðandi eflingu sjálfsmyndar nemenda.

Dagur læsis

Alþjóðlegur dagur læsis er í dag, 8. september. Sameinuðu þjóðirnar gerðu þennan dag að alþjóðadegi læsis árið 1965.

Á þessum degi er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að skipuleggja læsis- og lestrarviðburði. Grunnskólinn á Ísafirði tekur að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni og verður aukin áhersla á lestur í tilefni dagsins. Auk þess hefst lestrarátak í skólanum sem stendur þessa viku. Þá lesa allir að lágmarki 10 - 20 mínútur í hljóði á dag.

Öll ólík, öll eins

Grunnskólinn á Ísafirði tók á síðasta ári þátt í Comeniusarverkefni sem bar yfirskriftina „All different, all the same, Europe‘s Children.“ Verkefnið er unnið í samstarfi við fjögur önnur lönd í Evrópu, þ.e. Rúmeníu, Portúgal, Pólland og Kýpur. Það var 10. bekkur sem vann að þessu í fyrra en þetta er tveggja ára verkefni og nú hefur það komið í hlut 8. bekkjar að taka við keflinu. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að auka víðsýni og umburðarlyndi og eyða fordómum.