VALMYND ×

Fréttir

Sólmyrkvi

Föstudaginn 20. mars verður mesti sólmyrkvi sem sést hefur á Íslandi í rúm 60 ár. Sólmyrkvinn verður á skólatíma og mikil umræða hefur verið meðal kennara um hvernig unnt sé að leyfa nemendum að fylgjast með honum.  Það eru tvo atriði sem strandar á.  Annarsvegar að sólin sést ekki frá skólanum á þessum tíma og hinsvegar hætta á augnskemmdum ef ekki er farið varlega. 

Því bjóðum við foreldrum að sækja börn sín kl. 9:00 á föstudagsmorgninum og fara með þau að fylgjast með sólmyrkvanum, en það er t.d. hægt að gera það frá Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þeir foreldrar sem vilja gera það eru beðnir um að láta umsjónarkennara vita fyrir fimmtudaginn 19. mars og einnig að láta vita ef þeir bjóða vinum barna sinna með.

 

Samkvæmt upplýsingum frá augnlækni er HÆTTULEGT að horfa á sólmyrkvann án sólmyrkvagleraugna!

Skólabörn fá ókeypis gleraugu og aðrir eiga kost á að kaupa þau. Flestir kannast við að hægt er að valda bruna með því að beina sólargeislum í gegnum stækkunargler. Hið sama getur gerst í auganu þegar augasteinninn brýtur sólargeislana og beinir þeim í brennipunkt á sjónhimnu augans. Þar sem augað horfir beint í sólina getur því myndast brunagat á versta stað, það er í miðgróf sjónhimnunnar og veldur það blindum bletti í miðju sjónsviðsins, misstórum, með tilheyrandi sjónskerðingu sem oft er varanleg. Augnlæknar beina því til þeirra sem verða með stóra hópa barna að horfa á myrkvann, að brýna fyrir þeim að horfa allan tímann í gegnum gleraugun, það þarf ekki langan tíma til að valda óbætanlegum skaða. 

Skólinn faðmaður

Vel gekk að mynda keðju utan um skólann í morgun í blíðskaparveðri og taka þannig þátt í verkefninu Hönd í hönd. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur útbúið fræðsluefni um kynþáttafordóma og munum við nýta okkur það til áframhaldandi fræðslu varðandi þessi mál.

Hönd í hönd fyrir margbreytileika

Þann 21. mars er alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamisrétti. Af því tilefni eru um alla Evrópu haldnir viðburðir tengdir fjölbreytileika undir yfirskriftinni Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti. Síðustu ár hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands staðið að margvíslegum viðburðum í samstarfi við ýmsa hópa ungs fólks á Íslandi.

Þemað í ár er Hönd í hönd og hvetur Mannréttindaskrifstofan alla grunnskólanemendur á landinu að fara út úr skólabyggingunni kl. 11:00 þriðjudaginn 17. mars og leiðast í kringum hana og þannig standa saman með margbreytileika í okkar samfélagi. Skilaboðin eru skýr: Það er bannað að mismuna vegna útlits eða uppruna, njótum þess að vera ólík og allskonar.

Grunnskólinn á Ísafirði ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og munu nemendur mynda keðju utan um skólabygginguna á morgun kl. 11:00. 

Hilmir las til sigurs

Hilmir Hallgrímsson, sigurvegari í stóru upplestrarkeppninni (Mynd: Birna Lárusdóttir).
Hilmir Hallgrímsson, sigurvegari í stóru upplestrarkeppninni (Mynd: Birna Lárusdóttir).
1 af 2

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fór fram í gærkvöld í Hömrum. Þar lásu 14 nemendur 7. bekkja á norðanverðum Vestfjörðum ljóð og sögubrot fyrir áheyrendur og dómara.

Úrslitin urðu þau að Hilmir Hallgrímsson G.Í. sigraði. Í öðru sæti varð Davíð Hjaltason G.Í. og í því þriðja hafnaði Stefanía Silfá Sigurðardóttir frá G.B.

Dómarar voru þau Aðalbjörg Sigurðardóttir, Björk Einisdóttir, Hrafnhildur Hafberg og Pétur G. Markan. 

Við óskum öllum þessum frambærilegu upplesurum innilega til hamingju með árangurinn.

Söngkeppni Samfés

Samfestingurinn, árleg hátíð félagsmiðstöðva á Íslandi, fer fram nú um helgina í Laugardalshöll. 

Á föstudagskvöldið verða tónleikar frá kl. 18:00-23:00 þar sem nokkur fjöldi hljómsveita kemur fram, m.a. Amabadama, Friðrik Dór, Úlfur Úlfur og FM Belfast, svo nokkrar séu nefndar.

Söngkeppnin sjálf verður svo á laugardeginum frá kl. 13:00-16:00 í beinni útsendingu á Bravó. Fyrir hönd Vestfjarða keppa þau Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson, frá félagsmiðstöðinni Djúpinu á Ísafirði, en þau sigruðu Vestfjarðakeppnina nú fyrr á árinu. Þau munu flytja lagið We found love (Við fundum ást) sem söngkonan Rihanna gerði frægt, við íslenskan texta Lísbetar Harðardóttur. Nokkur fjöldi nemenda unglingastigs G.Í. mun fylgja keppendum og styðja við bakið á þeim og óskum við hópnum góðs gengis og ferðar, en þau munu leggja af stað til Reykjavíkur eldsnemma í fyrramálið. 

Hér má sjá og heyra upptöku af framlagi þeirra Hildu Maríu og Pétur Ernis.

 

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fer fram í Hömrum, föstudaginn 13. mars kl. 20:00. Þar munu 13 nemendur úr 7. bekk á norðanverðum Vestfjörðum keppa til úrslita, en þessir krakkar hafa komist lengst í upplestri í sínum skólum. Þátttakendur koma frá Grunnskólanum á Ísafirði, Grunnskóla Bolungarvíkur, Grunnskólanum Suðureyri, Grunnskóla Önundarfjarðar og Súðavíkurskóla. Dómarar verða þau Aðalbjörg Sigurðardóttir, Björk Einisdóttir og Pétur G. Markan.

Stóra upplestrarkeppnin hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi og sex árum síðar voru þátttakendur orðnir 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af, enda hafa allir nemendur 7. bekkjar æft framsögn frá því að keppnin hófst á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember s.l. 

 

Við hvetjum áhugasama til að koma og hlýða á vandaðan upplestur. 

Vel heppnaður útivistardagur

Blíða í Tungudal í dag
Blíða í Tungudal í dag

Nemendur 5. - 10. bekkjar áttu aldeilis góðan útivistardag í dag í Tungudal. Krakkarnir voru mjög duglegir á svigskíðum, gönguskíðum, brettum og sleðum, auk þess sem sumir fengu sér góðan göngutúr í þessu fallega umhverfi. Veðrið lék við okkur, þó aðeins færi að blása um hádegisbilið og allir fóru heim endurnærðir um kl. 13:00.

Útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal þriðjudaginn 10. mars  fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 9:00-13:00 á svigskíðum, gönguskíðum, sleðum eða þotum.

Við förum þess á leit við foreldra að þeir keyri börn sín á skíðasvæðið og sæki þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir auðvelt með að keyra börnin sín og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 8:45 og frá skíðasvæðinu kl 13:00.

Nánari upplýsingar hafa verið sendar í tölvupósti til allra foreldra.

Vestfjarðameistarar í Skólahreysti

Keppendur G.Í. sigurglaðir
Keppendur G.Í. sigurglaðir
1 af 2

Í dag fór fram keppni í Vestfjarðariðlinum í Skólahreysti. Grunnskólinn á Ísafirði sigraði riðilinn og tryggði sér þar með þátttöku í úrslitakeppninni sem fram fer í Laugardalshöll 22. apríl n.k.

Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Einar Torfi Torfason, Guðný Birna Sigurðardóttir, Gunnar Þór Valdimarsson og Katrín Ósk Einarsdóttir. Varamenn voru þau Birkir Eydal og Eva Rún Andradóttir.

Við óskum krökkunum innilega til hamingju með þennan glæsilega sigur og fylgjumst spennt með áframhaldinu.

Skólahreysti

Fimmtudaginn 5. mars keppir Grunnskólinn á Ísafirði í Vestfjarða- og Vesturlandsriðli í skólahreysti, í Mýrinni í Garðabæ kl. 13:00.  Fyrir hönd skólans keppa þau Einar Torfi Torfason í upphífingum og dýfum, Guðný Birna Sigurðardóttir í armbeygjum og hreystigreip og þau Katrín Ósk Einarsdóttir og Gunnar Þór Valdimarsson í hraðaþraut.

Við óskum okkar fólki góðs gengis og fylgjumst spennt með.