VALMYND ×

Þorgrímur Þráinsson í heimsókn

Í dag kom Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrirlesari með meiru, í heimsókn í skólann. Hann hélt fyrirlestur undir nafninu ,,Verum ástfangin af lífinu" fyrir 10. bekk, en fyrirlesturinn fjallar fyrst og fremst um það að nemendur leggi sig fram og beri ábyrgð á sinni vegferð og séu flottir einstaklingar.

6. og 7. bekkur fengu að skyggnast á bak við tjöldin hjá íslenska landsliðinu í knattspyrnu, en Þorgrímur hefur unnið með liðinu í 10 ár og tók myndir og myndbönd sjálfur á EM í Frakklandi sem hann sýndi nemendum. Hann lagði upp með það að hver bekkur geti verið sterk liðsheild og náð frábærum árangri með því að hjálpast að og sýna samstöðu.

Að lokum veitti Þorgrímur nemendum 5. bekkjar innsýn í hugarheim rithöfundar þar sem hann sagði frá því hvernig hann hugsar sögu, teiknar upp persónur, býr til söguþráð, plott og fleira til að gera sögu spennandi. Þá las hann upp úr væntanlegri bók sinni ,,Henri og hetjurnar" . Bókin kemur út fyrir næstu jól og fjallar um hinn franska Henri (10-12 ára) sem vinnur á hótelinu í Annecy þar sem leikmenn íslenska landsliðsins í fótbolta dvöldu á meðan þeir tóku þátt í EM.

Það var virkilega gaman að sjá hversu vel Þorgrímur náði til krakkanna og þökkum við honum kærlega fyrir komuna.

 

Deila