VALMYND ×

Snillingar keppa

Snillingarnir sem kepptu til úrslita, f.v. Daði Hrafn, Ásdís Ósk, Saga Líf, Halla María, Jóhanna Ýr og Ásgerður Pála
Snillingarnir sem kepptu til úrslita, f.v. Daði Hrafn, Ásdís Ósk, Saga Líf, Halla María, Jóhanna Ýr og Ásgerður Pála

Snillingarnir er heiti á bókmenntaspurningakeppni sem nú er haldin í fyrsta sinn á miðstigi Grunnskólans á Ísafirði og hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Nemendur 4.-7. bekkjar fengu lista yfir 13 barnabækur sl. vor og voru hvattir til að lesa sem mest af listanum. Keppnin var formlega sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Þá höfðu verið valin tvö þriggja manna keppnislið úr hverjum árgangi en keppnin sjálf hófst ekki fyrr en eftir áramótin. Þótt aðeins þrír séu í keppnisliðinu er mikilvægt að allir undirbúi sig vel, því að liðin mega spyrja bekkinn og fá aðstoð úr salnum.

Fyrsta umferð fór fram í bekkjarstofum en sigurvegararnir mættust síðan í tveimur undanúrslitakeppnum sem fóru fram í sal skólans með viku millibili að viðstöddum öllum nemendum og kennurum í 4.-7. bekk.

Úrslitakeppnin var haldin í gær, þriðjudaginn 14. febrúar í salnum og er óhætt að segja að mikil spenna hafi legið í loftinu. Eftir æsispennandi keppni fóru leikar þannig að liðið 6. bekkur A sigraði eftir að hafa lagt liðið Banana-ananas úr 7. bekk að velli.

Þetta frækna lestrarlið 6. bekkjar er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Sögu Líf Ágústsdóttur og Ásdísi Ósk Brynjarsdóttur og hlutu þau að launum bókina Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur, sem nýlega hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabóka. Auk þess fengu þau derhúfu merkta skólanum.

Silfurliðið í 2. sæti skipuðu þær  Jóhanna Ýr Barðadóttir, Ásgerður Pála Hilmarsdóttir og Halla María Ólafsdóttir og þær hlutu bókina Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason en hún var einmitt líka tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Öll liðin stóðu sig frábærlega og reyndust sannkallaðir snillingar og ekki síður stuðningsmennirnir sem jafnvel gátu ráðið úrslitum á stundum. Aðstandendur keppninnar þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir góða frammistöðu og drengilega keppni.

Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn á næsta skólaári en byrja þá fyrr og halda keppnina að hausti. Bókalistum verður dreift fyrir vorið og nemendur hvattir til að nýta sumarið til undirbúnings.

Deila