VALMYND ×

Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði

Mörg undanfarin ár hafa nemendur 7. bekkjar í Grunnskólanum á Ísafirði dvalið í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði í upphafi skólaársins.  Það hefur gefið góða raun og nemendur og kennarar hafa verið ánægðir með dvölina.

Starfið í skólabúðunum á í öllum aðalatriðum að beinast að sömu markmiðum og starfið í almennum grunnskólum. Í skólabúðunum er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi uppeldis- og félagsleg markmið og að því stefnt:

- að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda

- að auka félagslega aðlögun nemenda

- að þroska sjálfstæði nemenda

- að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni

- að nemendur kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta

- að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið og komast að niðurstöðu

- að auka athyglisgáfu nemenda

 

Í næstu viku, þ.e. 26. - 30. ágúst dvelja nemendur 7. bekkjar G.Í. í skólabúðunum og verður lagt af stað strax á mánudagsmorgni kl. 8:00.  Það er nýbreytni nú í ár að Ísafjarðarbær greiðir dvalargjald nemenda sem er 20.000 kr. á hvern nemenda. Aðgangseyrir að árshátíðum skólans fer í að greiða ferðakostnað og því fellur enginn kostnaður á foreldra og forráðamenn vegna skólabúðanna. 

Deila